Erlent

Segir uppbyggingu varla hafna

Uppbyggingarstarf í Aceh-héraði er varla hafið, rúmum fjórum mánuðum eftir að héraðið varð mjög illa úti í flóbylgjunni annan dag jóla. Þetta segir yfirmaður indónesískrar stofnunar sem samhæfa á enduruppbyggingu í héraðinu. Sakaði hann indónesísk stjórnvöld um að draga lappirnar í hjálparstarfinu og hamla öllu starfi með skrifræði sem m.a. kemur í veg fyrir að hægt sé að dreifa því fé sem innlend og erlend stjórnvöld hafa heitið til uppbyggingar á svæðinu. Stjórnvöld segja hins vegar að standa verði vel að málum svo aðstoðin verði markviss og fénu vel varið. Aukinnar gremju gætir meðal íbúa Aceh-héraðs vegna þess hve hægt málin þróast, en þar misstu um 600 þúsund manns heimili sín og 165 þúsund létust. Sagði forsvarsmaður stofnunarinnar sem á að sjá um uppbyggingarstarfið að ástandið væri mjög slæmt og að börn þar væru vannærð. Alls hefur 1200 milljörðum króna verið lofað til uppbyggingar á þeim svæðum Suðaustur-Asíu sem verst urðu úti í flóðunum, mestu þó til Indónesíu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×