Erlent

Kosningaþátttaka eina vafaatriðið

Allar skoðanakannanir bresku dagblaðanna í dag benda til sigurs Verkamannaflokksins. Eina vafaatriðið er kosningaþátttakan og það getur oltið á henni hvort Blair situr uppi með óstarfhæfa stjórn að kosningum loknum. Verkamannaflokknum er spáð 6 prósenta forskoti á Íhaldsflokkinn samkvæmt flestum könnunum sem birst hafa í bresku dagblöðunum í dag. Gangi það eftir eftir fær Verkamannaflokkurinn 38 prósent, Íhaldsflokkurinn 32 prósent og Frjálslyndir demókratar 23 prósent. Það þýðir að Verkamannaflokkurinn héldi 100 sæta meirihluta á breska þinginu. Það er enginn vafi á því að Verkamannaflokkurinn vinnur þessar kosningar og fær meirihluta atkvæða á landsvísu. Vafinn liggur í þingsætameirihlutanum sem erfitt er að spá fyrir um vegna breska kosningakerfisins. Þetta er ekki hlutfallskerfi eins og á Íslandi heldur 646 einmenningskjördæmi og úrslit kosninganna geta því ráðist í litlum og fámennum kjördæmum. Verkamannaflokkurinn hefur 161 sæta meirihluta á breska þinginu eins og er. Að jafnaði hlaupast um 50 þingmenn flokksins undan merkjum í öllum stórum málum sem Blair reynir að koma í gegnum þingið. Fréttaskýrendur eru því sammála um að Verkamannaflokkurinn verði að fá um það bil 100 sæta meirihluta til að ríkisstjórnin sé starfhæf og komi sínum stefnumálum í gegnum þingið. Kosningaþátttakan skiptir sköpum fyrir Verkamannaflokkinn; því meiri þátttaka, því meiri líkur á því að fólk kjósi Blair. Stuðningsmenn Íhaldsflokksins eru nefnilega stöðugri að þessu leyti og mæta til að kjósa, líka þegar veður er vont, rigning og kuldi. Þarna stendur hnífurinn í kúnni. Í síðustu kosningum mættu aðeins 59 prósent Breta á kjörstað og líkur eru á því að kjörsóknin núna verði svipuð, sérstaklega þar sem fólk veit að úrslitin eru svo til ráðin og nennir þar af leiðandi ekki að gera sér ferð á kjörstað. Það bætir ekki úr skák fyrir Blair að fyrirsagnir nánast allra dagblaðanna í dag litu út eins fyrirsagnir gera að öllu jöfnu degi eftir kosningar. Þau lýstu Verkamannaflokknum og Blair sem fyrirframgefnum sigurvegara. Forsvarsmenn flokksins óttast að það verði til að draga enn frekar úr kosningaþátttökunni. Sum götublöðin láta kosningarnar sig hins vegar engu skipta og minnast ekki á þær á forsíðu og varla á innsíðum sínum. Dálkahöfundur í Sun setur tóninn fyrir það dagblað og birtir sína skoðun undir risafyrirsögninni: „Ég myndi frekar klippa á mér táneglurnar og éta þær en kjósa Blair.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×