Erlent

Embættiseiðurinn svarinn

Ráðherrar í ríkisstjórn Íraks sóru embættiseið sinn í gær, í skugga ofbeldisöldu sem ekkert lát virðist á. Tvær bandarískar orrustuþotur eru taldar hafa lent í árekstri yfir landinu í fyrradag. Við innsetningarathöfn í íraska þinginu í gær hétu Ibrahim al-Jaafari forsætisráðherra og ráðuneyti hans að verja land og þjóð. Enn á þó eftir að skipa í fimm mikilvægar stöður, þar á meðal embætti varnarmálaráðherra og olíumálaráðherra, þar sem ekki hefur náðst samkomulag um hverjir eiga að gegna þeim. Al-Jaafari vill að súnníi taki að sér varnarmálaráðuneytið en á meðan sá maður er ófundinn stýrir forsætisráðherrann því sjálfur. Ekkert lát er á ofbeldinu í landinu. 35 féllu í árásum víðs vegar um Írak í fyrradag og í gær biðu 12 manns bana í skotbardaga í Ramadi, flestir þeirra uppreisnarmenn. Þrír lögreglumenn dóu í átökum í Samarra. Talið er að tvær bandarískar orrustuþotur sem saknað var á mánudag hafi skollið saman yfir suðurhluta Íraks. Lík eins flugmannsins fannst í gær en flök vélanna eru enn ófundin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×