Erlent

Kínverjar gefa Taívönum risapöndur

Kínverjar hafa ákveðið að bjóða Taívönum tvær risapöndur að gjöf. Sérfræðingar segja vart hægt að fá merkilegri gjöf frá Kínverjum, pöndurnar séu tákn um mikinn sátta- og samstarfsvilja. Pöndurnar voru boðnar á síðasta degi sögulegrar heimsóknar taívanska stjórnarandstöðuleiðtogans Liens Chan til Kína. Það er þó ekki enn ljóst hvort Taívanar hyggist þiggja pöndurnar. Kínverjar tíðkuðu það á árum áður að færa fyrirmennum sem komu í opinberar heimsóknir pöndur til að taka með heim. Forseti Íslands sækir Kína heim síðar í mánuðinum en það verður víst að teljast ólíklegt að hann komi til baka með pöndu í farteskinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×