Erlent

Fundu lyf sem frestar Alzheimer

Lyf hefur fundist sem virðist fresta því að fólk fái Alzheimer-sjúkdóminn. Það vekur vonir um að hægt sé að fyrirbyggja sjúkdóminn með öllu. Alzheimer-lyf eru almennt fremur ný á markaðnum og því er enn verið að kanna áhrif þeirra. Fregnir frá Bandaríkjunum benda til þess að eitt lyf, Aricept, hafi mun meiri og betri áhrif en talið var. Hingað til hafa læknar ekki viljað gefa sjúklingum lyf til forvarna heldur fyrst eftir að þeir greinast með sjúkdóminn. En ný rannsókn, sem kynnt var í tímaritinu New England Journal of Medicine, bendir til þess að skynsamlegt sé að gefa fólki sem er orðið lítið eitt gleymið Aricept þó að Alzheimer hafi ekki verið greindur. Átta hundruð manns fengu ýmist Aricept, e-vítamín eða lyfleysu. Þeir sem fengu Aricept reyndust síður líklegir til að fá Alzheimer fyrsta árið en eftir nokkurn tíma dró úr áhrifunum. Todd E. Feinberg, læknir á Beth Israel Medical Center, segir að a.m.k. sé hægt að hægja á þróun Alzheimer-sjúksómsins. Aðspurður hversu mikilvægt eitt ár sé segir Feinberg að frá sjónarhóli sjúklingsins sé það mjög mikilvægt. Niðurstöðurnar benda einnig til þess að hægt sé að hafa áhrif á gang Alzheimer sem kann að breyta því hvernig sjúklingar verða meðhöndlaðir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×