Erlent

Vill málamiðlun um Kosovo

Vojislav Kostunica, forsætisráðherra Serbíu, sagðist í gær reiðbúinn til að fallast á málamiðlanir í deilunum um Kosovo-hérað. Hann sagðist geta fallist á að Kosovo fengi víðtækt sjálfræði, en hafnaði þó algerum aðskilnaði héraðsins frá Serbíu. Nærri fimm ár eru liðin síðan Serbar misstu að mestu völd sín í Kosovo-héraði að loknu stríði við hersveitir frá Natóríkjum. "Við viljum viðræður þar sem komist verði að sameiginlegri lausn," sagði hann í ræðu sem haldin var til að minnast þess þegar Serbar sjálfir hlutu sjálfstæði undan Tyrkjum fyrir 190 árum. Alþjóðlegar viðræður um framtíðarfyrirkomulag í Kosovo verða haldnar síðar á árinu. Kostunica segist hafa fullan hug á að taka þátt í þeim viðræðum þannig að enginn standi upp frá borðum sem óskoraður sigurvegari, né heldur muni neinn tapa öllu. "Lausnin verður að byggjast á hagsmunum beggja," sagði hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×