Erlent

Krefjast 60 þúsund ára fangelsis

Sextíu þúsund ára fangelsisvistar er krafist yfir mönnum sem komu að skipulagningu hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 11. september. Engin fordæmi eru fyrir annarri eins öryggisgæslu og við dómhúsið í Madríd á Spáni í dag. Þetta eru stærstu réttarhöld sem haldin hafa verið í Evrópu yfir meintum hryðjuverkamönnum al-Qaida. Þrír mannanna eru sakaðir um að hafa komið að skipulagningu hryðjuverkaárásanna þann 11. september 2001. Þeir munu hafa átt fund með Mohammed Atta, einum flugmannanna, í júlí sama ár þar sem gengið var frá lokaskipulaginu. Krafist er tuttugu og fimm ára fangelsisvistar fyrir hvert fórnarlamba árásanna sem voru hart nær þrjú þúsund. Tuttugu og einn til viðbótar er sakaður um aðild að al-Qaida en Barakat Yarkas, meginsakborningurinn, mun hafa rekið eins konar liðssöfnunarstöð á Spáni árið 1995, þaðan sem ungir öfgamenn voru sendir í þjálfunarbúðir í Afganistan, Tsjetsjeníu, Bosníu og Indónesíu. Allir neita sakborningarnir sök. Osama bin Laden er einnig ákærður í málinu en spænsk lög leyfa ekki réttarhald að honum fjarverandi. Einn sakborninganna var fréttamaður hjá al-Jazeera og tók meðal annars viðtal við bin Laden skömmu eftir árásirnar. Eiginkona hans segir að hann sé sakaður um að hafa flutt 4000 bandaríkjadali til al-Qaida en þau hjónin hafi útskýrt hvaðan og hvert peningarnir fóru. Hún segir þetta pólitíska málsókn á hendur manni sínum fyrir að hafa sem blaðamaður flett ofan af voðaverkum Bandaríkjamanna í Afganistan og hitt Bin Laden. Öryggisgæslan við dómshúsið í Madríd er gríðarleg. Sjálft dómshúsið var byggt sérstaklega í útjaðri borgarinnar og á annað hundrað lögreglumenn eru gráir fyrir járnum við húsið. Sakborningarnir sitja á bakvið skothelt gler í réttarsalnum, þar eru tæki sem trufla sendingar rafmagnstækja til að útiloka fjarstýrðar sprengjur og þyrlur sveima yfir byggingunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×