Erlent

Gríðarleg öryggisgæsla á Spáni

Gríðarleg öryggisgæsla er vegna réttarhalda yfir tuttugu og fjórum meintum hryðjuverkamönnum al-Qaida á Spáni. Krafist er sextíu þúsund ára fangelsis yfir hverjum þeirra. Réttarhöldin eru þau umfangsmestu gegn íslömskum öfgamönnum í Evrópu og er gert ráð fyrir að þau geti tekið allt að tvö ár. Á annað hundrað lögreglumenn eru gráir fyrir járnum við dómssalinn sem var byggður sérstaklega í útjaðri Madrídar. Sakborningarnir sitja á bakvið skothelt gler í réttarsalnum, þar eru tæki sem trufla sendingar rafmagnstækja til að útiloka fjarstýrðar sprengjur og þyrlur sveima yfir byggingunni. Meintur leiðtogi al-Qaida á Spáni svarar til saka ásamt tuttugu og þremur öðrum sem grunaðir eru um að hafa aðstoðað hryðjuverkamennina sem gerði árásirnar í Bandaríkjunum 11. september 2001. Þeim er gefið að sök af hafa átt fundi með mönnunum sem rændu flugvélunum. Fundurinn átti sér stað í Tarragona í júlí árið 2001 og þar var gengið frá lokaskipulagningu hryðjuverkaárásanna. Leiðtoginn, Imad Eddin Barakat Yarkas frá Sýrlandi, á yfir höfði sér 62.512 ára fangelsi verði hann sakfelldur fyrir hryðjuverkamorð, tuttugu og fimm ár fyrir hvert fórnarlamb árásanna. Hann á að hafa komið á fót eins konar liðssöfnunarstöð á Spáni árið 1995, þaðan sem ungir öfgamenn voru sendir í þjálfunarbúðir í Afganistan, Tsjetsjeníu, Bosníu og Indónesíu. Málið er runnið undan rifjum rannsóknardómarans Baltasars Garzon sem hefur rannsakað umsvif íslamskra öfgamanna í Evrópu frá því árið 1991.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×