Erlent

Vonast til að halda embætti

Silvio Berlusconi vonast enn til að halda forsætisráðherraembættinu á Ítalíu en forseti landsins kannar hvort hann nýtur til þess stuðnings. Fleiri vandamál blasa þó við Berlusconi en hugsanlegar þingkosningar. Carlo Azeglio Ciampi, forseti Ítalíu, ræddi í morgun við fulltrúa allra flokka á ítalska þinginu til að reyna að skera úr um hvort að Silvio Berlusconi nyti nægilegs stuðnings til að fá umboð til stjórnarmyndunar á ný. Berlusconi sagði af sér embætti í gær en vill mynda nýja stjórn með sömu flokkum og mynduðu fyrri stjórnina. Sjálfur lítur hann þó ekki á þetta sem hefðbundna afsögn heldur þurfti hann að segja af sér þar sem til stóð að stokka stjórnina verulega upp. Komist Ciampi að þeirri niðurstöðu að Berlusconi njóti ekki nægilegs stuðnings til að mynda nýja stjórn er hann neyddur til þess að efna til þingkosninga. Vinsældir Berlusconis hafa dalað verulega og því er hann ekki spenntur fyrir kosningum. Almennt er búist við því að Berlusconi fái vilja sínum framgengt. En þar með lýkur vandræðum hans ekki því dómstóll Evrópusambandsins ætlar að fjalla um ítölsk lög sem haldið er fram að heimili bókhaldsfals upp að vissu marki. Fullyrt er að þau lög séu sniðin að þörfum Berlusconis sjálfs sem er auðugasti maður Ítalíu og einn umsvifamesti kaupsýslumaður landins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×