Erlent

Stjórnmálaþjark í skugga árása

Trúarbragðadeilur fara harðnandi í Írak og árásum hryðjuverkamanna fjölgar sífellt. Á meðan þjarka stjórnmálamenn um embætti og völd en leysa ekki ærinn vanda sem við blasir. Varað er við myndum í þessari frétt. Hver mannskæð árásin hefur rekið aðra í Írak í vikunni og ekki færri en tuttugu bílsprengjuárásir verið gerðar í Bagdad til dæmis. Síðdegis fórst þyrla með ellefu innanborðs, þar af sex Bandaríkjamenn auk búlgarskrar áhafnar, og segjast uppreisnarmenn hafa skotið hana niður. Í morgun fórust tveir erlendir verktakar á veginum að alþjóðaflugvellinum við borgina þegar árás var gerð á bílalest þeirra. Í gær fórust þar þrír í sambærilegri árás og á þriðjudag féllu þar tveir bandarískir hermenn. Þrír mánuðir eru nú liðnir frá því að kosningar fóru fram í Írak og er óánægjan með að ekki hafi enn tekist að mynda starfhæfa stjórn mikil. Í dag stóð til að greina frá skipan nýrrar ríkisstjórnar Íraks en því hefur verið frestað eftir að til deilna kom enn á ný í gærkvöldi. Í þetta sinn mun það hafa verið bráðabirgðaforsætisráðherrann Iyad Allawi sem brást illa við því að flokki hans væru einungis boðin tvö ráðherraembætti og ekki þau sem hann sóttist eftir. Deilurnar undirstrika spennuna á milli ólíkra trúarhópa, en sjítar og súnnítar karpa um embættin. Ránið og morðin á 50 súnnítum sem fundust á floti í ánni Tígris í gær eru einnig rakin til trúarbragðadeilna sem margir óttast að geti breiðst út og orðið trúarbragðastríð verði ekki gripið inn í þegar í stað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×