Erlent

Vill breytingar í Hvíta-Rússlandi

Hvíta Rússland er síðasta einræðisríkið í Mið-Evrópu og þar er tímabært að breytingar verði gerðar, segir Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Rice er á fundi utanríkisráðherra NATO í Vilníus í Litháen og þar lýsti hún þeirri skoðun sinni að það hefði verið fyrrverandi Sovétríkjum í hag að losna undan oki alræðis. Nú væri tímabært að breytingar yrðu í Hvíta-Rússlandi, síðasta raunverulega einræðisríkinu í Mið-Evrópu. Rice hefur áður sagt að Hvíta-Rússland sé meðal sex útvarðstöðva einræðis í heiminum ásamt Íran, Kúbu, Norður-Kóreu, Búrma og Simbabve. Orð Rice hafa valdið reiði í Hvíta-Rússlandi og utanríkisráðherra landsins brást ókvæða við. Hann sakaði Rice um að skipta sér af innanríkismálum og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, tók í sama streng. Hann sagði að stjórnvöld í Moskvu væru ósammála stefnu sem miðaði að stjórnarskiptum í Hvíta-Rússlandi og fullyrti að raunverulegar umbætur kæmu ekki að utan. Síðast á þriðjudaginn var sagði Alexander Lukashenko, forseti Hvíta-Rússlands, í ávarpi að hann myndi klekkja á hverjum þeim sem reyndi að grafa undan valdi hans. Hann bætti því við að Vesturlönd reyndu allt hvað þau gætu til að valda óróa og ólgu í fyrrverandi ríkjum Sovétríkjanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×