Erlent

Útiloka ekki trúarbragðastríð

Blóðsúthellingar og pólitískar deilur magna spennuna í Írak, og virðist sem trúarbragðastríð sé ekki útilokað. Í dag stóð til að greina frá skipan nýrrar ríkisstjórnar Íraks en því hefur verið frestað eftir að til deilna kom enn á ný í gærkvöldi. Í þetta sinn mun það hafa verið bráðabirgðaforsætisráðherrann Iyad Allawi sem brást illa við því að flokki hans væru einungis boðin tvö ráðherraembætti og ekki þau sem hann sóttist eftir. Deilurnar undirstrika spennuna á milli ólíkra trúarhópa, en sjítar og súnnítar karpa um embættin. Þrír mánuðir eru nú liðnir frá því að kosningar fóru fram í Írak og er óánægja með að ekki hafi enn tekist að mynda starfhæfa stjórn. Ringulreið hefur skapast vegna þessa sem andspyrnu- og hryðjuverkamenn hafa notfært sér undanfarið. Árásum þeirra fjöldar sífellt. Undanfarna viku hafa ekki færri en tuttug bílsprengjuárásir verið gerðar í Bagdad og í morgun fórust tveir erlendir verktakar á veginum að alþjóðaflugvellinum við borgina. Í gær fórust þar þrír í sambærilegri árás og á þriðjudag féllu þar tveir bandarískir hermenn. Flugvallarvegurinn er orðinn hálfgert tákn baráttunnar sem hersetuliðið á í en þó að hann sé stuttur og gríðarlega vel gætt tekst hryðjuverkamönnum æ ofan í æ að valda þar manntjóni. Fleiri skotmörk, sem vel er gætt, eru ekki örugg. Öflug sprengja var sprengd fyrir utan híbýli Iyads Allawis í gærkvöldi skömmu eftir að stjórnarmyndunarfundinum lauk án árangurs. Í morgun lýsti al-Qaida í Írak því yfir að samtökin hefðu sent hryðjuverkamenn sína til þess að ráða Allawi af dögum. Mennirnir hefðu verið sendir til höfuðstöðva trúleysingjanna og bandamanna þeirra úr röðum gyðinga og kristinna. Allawi komst undan þessari ör, segir í tilkynningunni, en það eru fleiri örvar til.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×