Erlent

Himneskar veigar

Nýi páfinn, Benedikt XVI, messaði í fyrsta sinn og kynnti sér aðstæður í Páfagarði í dag. Í heimabæ hans er kjörinu fagnað með því að baka Ratzinger-tertu, Vatíkanbrauð og bjóða upp á Benedikts-pylsu. Benedikt páfi XVI leiddi fyrstu messu sína sem 265. leiðtogi rómönsk-kaþólsku kirkjunnar í gærkvöldi. Ekki voru þó allir viðstaddir með það á hreinu. Kólumbíski kardínálinn Alfonso Lopez Trujillo ávarpaði hann sem Jóhannes Pál en leiðrétti sig reyndar um hæl. Kannski ekki svo skrítið í ljósi þess að Benedikt er sagður hafa verið valinn sem millibilspáfi sem framfylgja á stefnu Jóhannesar Páls. Enginn veit nákvæmlega til hvaða Benedikts Joseph Ratzinger er að vísa með vali sínu á nafninu, en getgátur eru meðal annars uppi um Benedikt páfa XV sem reyndi að stilla til friðar í Seinni heimsstyrjöldinni. Fleiri Benediktar eru nefndir til sögunnar. John Wauck, sérfræðingum í málefnum Páfagarðs, telur að hann hafi valið Benediktsnafnið vegna þess að heilagur Benedikt hafi verið einn af máttarstólpum og frumkvöðlum hinnar kristnu Evrópu. „Með því að velja nafnið Benedikt er hann að segja að við gefum ekki Evrópu upp á bátinn á tímum þegar margir tala um dauða kristninnar í Vestur-Evrópu. Hann segir: „Nei, trúin í Vestur-Evrópu á sér von.“ Þetta val er eiginlega menningarleg yfirlýsing um trú og von í Evrópu,“ segir Wauck.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×