Erlent

NATO-fundur í Vilníus

Utanríkisráðherrar aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins ræddu í gær framtíðarhlutverk þess í Vilníus í Litháen en fundinum lýkur síðar í dag. Nánari tengsl við Rússland og Úkraínu, svo og aðkoma að friðarferlinu fyrir botni Miðjarðarhaf eru á dagskránni. Ráðherrarnir hittast af og til á óformlegum fundum eins þeim sem fram fer nú í Vilníus og því verða engar formlegar ákvarðanir teknar þar. Engu að síður fer þar fram mikilvæg stefnumótun sem síðar er fest í sessi. Meðal mála sem eru á dagskránni er aukið hlutverk NATO utan síns hefðbundna áhrifasvæðis og horfa menn einkum til Mið-Austurlanda í því sambandi. Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri bandalagsins, lagði hins vegar áherslu á í viðtali við blaðamenn að NATO sendi tæpast herlið til Palestínu heldur yrði um annars konar stuðning að ræða. Frekari tengsl NATO við Evrópusambandið verða jafnframt rædd svo og nánara samstarf við Rússland og Úkraínu án þess þó að um aðild þessara landa verði að ræða. Davíð Oddsson utanríkisráðherra er fulltrúi Íslands á fundinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×