Erlent

Fimmtíu lík í Tígris

Fimmtíu lík hafa fundist í fljótinu Tígris í Írak undanfarna daga og eru þau talin vera af mönnum sem teknir voru sem gíslar í liðinni viku. Tugir manna liggja í valnum eftir ódæði gærdagsins. Jalal Talabani, forseti Íraks, segir að kennsl hafi verið borin á líkin fimmtíu sem fundust í Tígris, en þau eru af gíslunum sem teknir voru í bænum Madain í liðinni viku. Þegar íraskar öryggissveitir komu til bæjarins á sunnudaginn fundust hvorki gíslar né uppreisnarmenn og því töldu margir að gíslatakan hefði aldrei farið fram heldur hefði uppákoman verið áróðursbragð sjía. Nú hefur annað komið á daginn. Þá fundust í gær sundurskotin lík 19 Íraka sem höfðu verið teknir af lífi á fótboltaleikvangi í bænum Haditha, norðvestur af höfuðborginni. Talið er að hinir látnu hafi verið hermenn sem voru á heimleið til að fagna afmælisdegi Múhameðs spámanns en ekki hafa fundist nein skilríki á þeim sem benda til þess að svo sé. Sjö manns biðu bana þegar þrjár sprengjur sprungu í Bagdad með stuttu millibili í gærmorgun. Þá létust þrír í skotárásum víða um land.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×