Innlent

Tugir athugasemda við nýja biblíu

Tugir athugasemda hafa borist við þýðingu Nýja testamentisins, sem er til kynningar á vefsíðu Hins íslenska biblíufélags, að sögn Jóns Pálssonar, framkvæmdastjóra félagsins. "Við sendum öllum prestum, trúfélögum og tilteknum einstaklingum textann til yfirlestrar," sagði hann. "Athugasemdir hafa verið að berast frá öllum þessum aðilum. Mér sýnist að þeir lesi sérstaklega yfir þær bækur sem þeir hafa áhuga á og geri ýmsar athugasemdir." Jón sagði að ábendingarnar dreifðust á ýmis atriði. Þar stæði ekkert eitt upp úr. Sem dæmi nefndi hann réttlætishugtakið. Í nýju þýðingunni væri orðalaginu breytt, þannig að í stað "...þá munu hinir réttlátu segja..." kæmi "...þá munu þeir sem fóru að vilja Guðs segja..." Hann sagði að allmargar athugasemdir hefðu verið gerðar við þetta og virtust margir vilja halda í réttlætishugtakið. "Þá eru nokkrar athugasemdir um þéringarnar "vér" og "oss". Stefnan er sú að stíga hálft skref þar, að halda þessu óbreyttu í lithúrgískum textum, það er þeim sem notaðir eru við helgiathafnir, og bænatextum, en nota í frásögu "við" og "okkur." Við sjáum á innsendum ábendingum að mörgum finnst vænt um þetta gamla form, en láta þess jafnframt getið að þeir verði að útskýra það fyrir fermingarbörnum, svo dæmi séu nefnd," sagði Jón. "Í Mattheusarguðspjalli segir í þýðingunni að Jesú sé "reyndur." Í athugasemd þar að lútandi vill viðkomandi að talað sé um að hans sé "freistað." Viðkomandi finnst fyrra hugtakið of máttlaust." "Ég vil taka það sérstaklega fram að þetta er þýðingartillaga," sagði Jón enn fremur. "Allur almenningur getur farið á heimasíðu félagsins og kynnt sér hana." Frestur til að skila athugasemdum hefur verið framlengdur til 5. maí að sögn Jóns. Þær má senda til Hins íslenska biblíufélags í Hallgrímskirkju á Skólavörðuhæð 101, Reykjavík. Kynningarútgáfan er aðgengileg á heimasíðunni www.biblian.is.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×