Erlent

Hættu lífi sínu í rútuferð

Söguleg rútuferð var farin í morgun á milli indverska og pakistanska hluta Kasmírhéraðs. Fimmtíu farþegar hættu lífi sínu með því að taka þátt í þessari friðarför sem vonir standa til að marki upphafið að friðsamlegri samskiptum Indlands og Pakistans. Þetta er í fyrsta sinn í tæp sextíu ár sem boðið er upp á áætlunarferðir á milli indverska og pakistanska hluta Kasmírs. Vegurinn hefur verið lokaður enda hefur stríðsástand ríkt á þessu svæði í áratugi. Indland og Pakistan hafa barist um yfirráð í Kasmírhéraði en að undanförnu hafa yfirvöld í þessum löndum sýnt áhuga á því að slíðra sverðin. Áætlunarferðirnar eru hluti af þessu friðarferli. Tvær rútur lögðu upp í morgun, önnur með 31 farþega frá Muzaffarabad í Pakistan og hin með 19 farþega frá Srinagar á Indlandi. Þessir farþegar hættu beinlínis lífi sínu með því að fara í þessa fyrstu ferð því uppreisnarmenn á báða bóga hafa heitið því að berjast áfram. Í gær réðust tveir menn á umferðarmiðstöðina í Srinagar, skutu í allar áttir og kveiktu í byggingunni með sjálfssmorðssprengjum. Farþegar áttu fótum sínum fjör að launa en engan þeirra sakaði. Skotið var á rútuna Pakistanmegin í morgun en þar sakaði heldur engan. Farþegarnir sögðust tilbúnir að hætta lífi sínu til að stuðla að friði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×