Erlent

Bandaríkjamenn og Fischer sættist

Anatolí Karpov, fyrrverandi heimsmeistari í skák, segist ekki skilja óbeit bandarískra stjórnvalda í garð Bobbys Fischers, mannsins sem margir telja mesta skákmann sem bandaríska þjóðin hefur alið. Hann vill að Bandaríkjamenn og Fischer sættist. Karpov sagði þetta í viðtali í tengslum við fyrirlestur i Háskólanum í Maryland í gær og rifjaði upp hversu mikils virði heimsmeistaratitill Fischers var sjálfsímynd Bandaríkjamanna. Rétt er að rifja það upp að þegar Fischer varð heimsmeistari stóð Kalda stríðið á milli Bandaríkjamanna og Sovétmanna hvað hæst og Sovétmenn höfðu verið einráðir í skáklistinni um langt skeið. Karpov sagðis vorkenna Fischer fyrir þá stöðu sem han væri í þótt hann væri ekki sammála ummælum Fischers um Bandaríkjamenn en tími væri kominn til þess af beggja hálfu að sættast. Hann tjáði sig líka um þær fyrirætlanir skáksnillingsins Garrys Kasparovs að leggja taflmennskuna á hilluna og taka upp stjórnmálabaráttu gegn Vladímír Pútín Rússlandsforseta. Karpov, sem þekkti vel til stjórnkerfis Sovétríkjanna og hefur því væntanlega innsæi í núverandi stjórnkerfi, spáði Kasparov litlu gengi á pólitísku brautinni en sagðist þó hafa skilning á að hann vildi breyta til því það yrði stöðugt erfiðara fyrir hann að verja yfirburði sína fyrir yngri snillingum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×