Menning

Allt við landið heillar

Draumastaðurinn hennar Guðlaugar Elísabetar Ólafsdóttur leikkonu er ekki svo fjarri og mun nær nú en þegar hún fór þangað fyrst. "Staðurinn sem mig langar til að fara til og dvelja á er Rússland. Ég er með einhverja Rússlandsáráttu. Landið og borgirnar og arkitektúrinn, sagan og listirnar finnst mér óskaplega heillandi en eins tengi ég svo vel við fólkið þar. Mér finnst undursamlegast að hitta fyrir fólk svona langt í burtu sem ég næ svona innilegu sambandi við. Mig langar að kunna rússnesku og bara prófa að vera þarna, lengi helst því ég fann mig ofboðslega mikið heima innan um þetta fólk og tengdi algerlega við land og þjóð," segir Guðlaug sem hefur tvisvar sinnum komið til Rússlands, á mjög ólíkum tímum.

"Ég fór þarna fyrst árið sem ég var tvítug með hópi ungs fólks frá Evrópu og á Norðurlöndunum í ferð sem kallaðist "Next Stop Soviet" og var farin gegn kjarnorkutilraunum og í þágu samskipta, friðar og elskulegheita. Við komum þarna í lokin á glasnostinu en fyrir hinar gagngeru breytingar sem urðu á tíunda áratugnum. Þetta var alger óvissuferð inn í lokað og framandi land en ég bara heillaðist algerlega. Svo var ég svo heppin tíu árum seinna að vera að leika í sýningu með rússneskum leikstjóra og okkur var boðið til Mosvku og þá upplifði ég mjög sterkt hvað breytingarnar voru ótrúlegar."

Guðlaug er samt ekki á leið til Rússlands í bráð því hún er á kafi í sýningunni Riðið inn í sólarlagið sem verður frumsýnd í Borgarleikhúsinu í næstu viku. "Þetta er mjög spennandi verk, finnst mér, um ungt fólk og samskipti þess, firringuna, ábyrgðarleysið og ábyrgðina, óttann við skuldbindingar og óttann við tilfinningar. Það skemmtilega er að öll þessi samskipti eiga sér í stað í svefnherbergjum persónanna og eins og allir vita sem eru komnir til vits og ára gerist ýmislegt innan veggja svefnherbergisins."

Guðlaug verður þessvegna dálítið bundin við svefnherbergið á næstunni en Rússland er ekki að fara neitt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×