Sport

Rúnar ekki á sólarströnd

Knattspyrnumaðurinn Rúnar Kristinsson var ekki á sólarströnd þegar Íslendingar léku gegn Japönum og Englendingum á Manchester-mótinu í júní í fyrra líkt og haldið var fram í pistli í Fréttablaðinu í gær. Rúnar var í sumarfríi á Íslandi og fór meðal annars út til Englands og horfði á félaga sína í íslenska landsliðinu leika gegn enska liðinu. Þetta sagði hann við Fréttablaðið í gær og kvaðst verulega ósáttur við að ekki væri rétt farið með staðreyndir. Hann sagði líka að það væri mikil einföldun að stilla dæminu upp þannig að það væri fáránlegt fyrir hann að treysta sér ekki til að spila leikinn gegn Króötum eftir ellefu daga vegna veikinda og meiðsla. "Ég spilaði leik á laugardaginn en þurfti að fá sprautu á sunnudagsmorguninn. Ég gat ekkert æft á mánudaginn en náði síðan einni æfingu fyrir bikarleikinn í kvöld," sagði Rúnar í samtali við Fréttablaðið í gær. Hann sagði að það væri síðan deildarleikur fram undan á laugardaginn og því væri ekki eins og hann lægi með tærnar upp í loft þar til leikurinn gegn Króötum fer fram. "Ef ég hefði spilað með landsliðinu hefði ég spilað á laugardegi og miðvikudagi og síðan þurft að mæta hjá mínum vinnuveitendum á fimmtudegi til að gera mig kláran fyrir leik á laugardegi. Ég þekki líkama minn og veit að hann hefði ekki þolað þetta. Þess vegna tók ég þessa ákvörðun - ekki vegna þess að ég hafi ekki lengur áhuga á því að spila með íslenska landsliðinu. Allir sem sáu mig spila gegn Ítölum hljóta að hafa séð að ég hef enn metnað fyrir landsliðinu."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×