Sport

Í öðrum styrkleikaflokki

Óvissa hefur verið um verkefni íslenska kvennalandsliðsins á þessu ári þar sem enn á eftir að draga í næstu undankeppni. Nú sér fyrir endann á því þar sem dregið verður í riðla fyrir undankeppni HM kvennalandsliða 18. mars næstkomandi og því ætti nýráðinn landsliðsþjálfari, Jörundur Áki Sveinsson, að geta farið að setja upp verkefni landsliðsins í kjölfarið. Í undankeppninni verður leikið í fimm riðlum og verður hver riðill skipaður fimm liðum, einu úr hverjum potti innan efsta styrkleikaflokks. Íslensku stelpurnar eru í öðrum styrkleikaflokki og geta því ekki lent með Rússum, Ítölum, Englendingum eða Finnum í riðli en þrjú þau fyrstnefndu hafa verið andstæðingar liðsins í síðustu undankeppnum. Efsta lið hvers riðils kemst í úrslitakeppni HM í Kína 2007, en neðstu liðin leika aukaleiki um fall í annan styrkleikaflokk. Sextán þjóðir spila í úrslitakeppninni í Kína, fimm frá Evrópu, tvær frá Asíu, tvær frá Afríku, tvær frá Norður- og Mið-Ameríku, tvær frá Suður-Ameríku og ein frá Eyjaálfu auk gestgjafanna frá Kína og sigurvegara umspils milli þriðju bestu þjóðanna úr undankeppni Asíu og undankeppni Norður- og Mið-Ameríku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×