Sport

Aumingjaskapur í mér

Síðasta helgi var heldur betur viðburðarrík fyrir Magnús Gylfason, þjálfara KR. Á föstudagskvöldið stóð hann í ströngu á Herrakvöldi KR og á sunnudeginum stjórnaði hann KR-ingum til sigurs gegn Þrótti í Deildarbikarnum. En í millitíðinni þurfti hann kljást heiftarlega magakveisu sem ekkert minna en morfín þurfti til að halda niðri. "Verkirnir fóru að gera vart um sig á föstudagsnóttina eftir Herrakvöldið og ég var sárkvalinn alla nóttina," segir Magnús sem var síðan fluttur á sjúkrahús á laugardagsmorgunin. Þar var hann lagður inn og við tóku hverjar rannsóknirnar á fætur annari. "Í fyrstu var jafnvel talið að þetta væru nýrnasteinar en síðan var það útilokað. Læknarnir ákváðu samt að senda mig í magaspeglun á mánudeginum en þar fundust engar bólgur heldur. Ég verð einfaldlega að taka mig á - þetta er bara einhver aumingjaskapur í mér," segir Magnús í léttum tón. Þessi uppákoma tekur allan vafa af því að Magnús er harðnagli í húð og hár sem lætur magakveisu og morfín ekki aftra sig frá því að sinna skyldum sínum sem þjálfari. Aðspurður um hvort þetta séu ekki bara aukaverkanir streitunnar sem fylgir því jafnan að vera þjálfari Vesturbæjarstórveldisins segist Magnús ekki halda að svo sé. "Ég hef ekki enn fundið fyrir stressinu þó að það eigi sjálfsagt eftir að koma síðar," segir Magnús. "En þann dag í dag veit ég ekki af hverju þessi verkur stafaði en ég vona bara að þetta komi ekki aftur. Þetta var alls ekki gott," segir Magnús sem hinsvegar hefur fulla trú á að þessi veikindi eigi eftir að leiða gott af sér fyrir komandi keppnistímabil í Landsbankadeildinni. "Fall er fararheill, er það ekki?"



Fleiri fréttir

Sjá meira


×