Erlent

Ekki ákærður fyrir að skjóta Íraka

Bandarískur hermaður sem skaut særðan og óvopnaðan írakskan uppreisnarmann til bana í nóvember á síðasta ári verður ekki ákærður þar sem sönnunargögn skortir. Atvikið náðist á myndband en það reyndist ekki nóg. Atvikið vakti heimsathygli enda ekki á hverjum degi sem sjónvarpsvélar ná myndum af stríðsátökum í þvílíku návígi þótt enginn efist um að svona atvik séu afar algeng. Myndbandsupptakan, sem er frá bandarísku sjónvarpsstöðinni NBC, sýnir þegar bandarískir hermenn koma inn í mosku í Falluja og finna þar nokkra helsærða Íraka innan um aðra sem höfðu fallið í átökum við Bandaríkjaher daginn áður. Á meðan myndatökumaðurinn er að taka myndir af særðum manni heyrist einn af bandarísku hermönnunum hrópa að einn Írakanna sé að þykjast vera dauður. Hermaðurinn heldur því fram að hann hafi séð hreyfingu þar sem Írakinn lá á gólfinu og hann hafi talið að hann væri að seilast eftir byssu. Myndatökumaður NBC hefur hins vegar vottað, það sem reyndar sést líka á myndbandinu, að Írakinn hafi verið á lífi þegar bandaríski hermaðurinn skaut hann og jafnframt að hann hafi hvorki verið vopnaður né ógnandi á nokkurn hátt. Þrátt fyrir þetta segja hermálayfirvöld að sönnunargögn séu ófullnægjandi og nægi ekki til að ákæra hermanninn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×