Lífið

Saman á salernið

Hvers vegna þurfa konur að fara saman á snyrtinguna, jafnvel í stórum hópum? Þetta hefur lengi verið ráðgáta meðal karlmanna. Veitingastaðir í höfuðborginni telja þetta nauðsynlegan þátt í lífi kvenna og hafa brugðist við með því að fella niður skilrúm milli salerna. Spurningum um það hvað veldur skrýtnum hópferðum kvenna á salerni verður líklega seint svarað enda ýmsar ástæður sem kunna að liggja að baki slíkum athöfnum, en þau eru án efa mörg leyndarmálin sem hafa flogið á milli kvenna við slíkar aðstæður. Á Kaffi Sólon geta samrýmdar vinkonur nýtt sér samhliða salernisskálar til hins ýtrasta því um leið og þær létta á sér geta þær rætt saman um lífið og tilveruna. Í Alþjóðahúsinu var tveimur salernisskálum á kvennasnyrtingunni upphaflega komið fyrir án skilrúms til að nýta betur takmarkað pláss í húsinu. Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahússins, segir að þetta fyrirkomulag hafi reynst vel. Enginn hafi gert athugasemd við þessa tilhögun heldur hafi þvert á móti verið ánægja með hana. Aðspurður hvað hann telji búa að baki því að konur fari saman á salernið segir Einar erfitt að svara því. Hann velti því þó fyrir sér hvort verið sé að ræða sérstök kvennamál eða um hitt kynið. Endalaust megi brjóta heilann um það. Á karlasnyrtingum eru samhliða salernisskálar algengar en samverustundirnar þar virðast af allt öðrum toga en hjá kvenþjóðinni. Einar segir að menn hitti oft kunningja við salernisskálina og spjalli um daginn og veginn en hann segist ekki muna eftir að hafa heyrt af karlmanni sem hafi beðið annan karlmann að koma með sér á klósettið. Það tíðkist ekki þar sem hann þekki til.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.