Erlent

Á fjórða tug liggur í valnum

Slasaðist í Sprengingunni.  Veitingahúsið var fullt af fólki þegar sjálfsmorðssprengju­mennirnir tveir unnu illvirkið.
Slasaðist í Sprengingunni. Veitingahúsið var fullt af fólki þegar sjálfsmorðssprengju­mennirnir tveir unnu illvirkið.

Í það minnsta 33 létust og nítján særðust í mannskæðri sjálfsmorðsárás á veitingahúsi í Bagdad í gær. 27 lík fundust skammt frá írönsku landa­mærunum. í gærmorgun sprengdu tveir sjálfsmorðssprengjumenn vítis­vélar sínar á veitingastað í Bagdad þar sem lögregluþjónar fá sér gjarnan morgunverð. Sjö þeirra voru á meðal hinna látnu en hin fórnarlömbin eru öll sögð almennir borgarar.

Ekki er vitað hver ber ábyrgð á tilræðinu. "Ég fór út til að sjá hvað hefði gerst. Lík lágu úti um allt og gatan var roðin blóði. Það er glæpur að ráðast gegn saklausu fólki að fá sér morgunmat," sagði Samyia Mohammed, húsmóðir í nágrenninu.

Um svipað leyti létust sjö manns í Tikrit, heimaborg Saddams Hussein, þegar bílsprengja sprakk við ráðningarstofu hersins. Þá fundust í gærmorgun, nærri írönsku landamærunum, lík 27 óþekktra manna, klædd borgaralegum klæðnaði. Þeir höfðu verið bundnir og skotnir í höfuðið af stuttu færi. Slíkar aftökur virðast hafa færst í vöxt en síðan ríkis­stjórnin tók við völdum í apríl á þessu ári hafa 566 lík fundist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×