Erlent

Fólk haldi sig fjarri miðborginni

Yfirvöld í Rómaborg hvetja pílagríma sem koma til borgarinnar í dag til þess að halda sig fjarri miðborginni vegna öngþveitis. Fjórar milljónir pílagríma hafa þegar lagt leið sína til Rómar síðan á sunnudaginn og er búist við að nokkrar milljónir manna eigi enn eftir að bætast við. Þegar horfir til vandræða í borginni þar sem þrjár milljónir manna búa alla jafna. Lögregluyfirvöld segja útilokað að þeir sem koma til Rómar héðan af geti verið viðstaddir jarðarförina á morgun þar sem svæðið í kringum Péturstorg taki einfaldlega ekki við fleira fólki. Klukkan tíu í gærkvöldi var hætt að hleypa fólki í biðröðina fyrir utan Péturskirkjuna og var hún þá rúmir tveir kílómetrar og taldi meira en milljón manns. Snemma í morgun beið fólk enn í röðinni og var ekki útlit fyrir að þeir síðustu kæmust inn í kirkjuna fyrr en eftir hádegi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×