Erlent

Flugstjóranum að kenna?

Rannsókn flugslyssins í Toronto gæti tekið mörg ár að mati þeirra sem vinna að henni. Slysið var flugstjóranum að kenna, segir samgönguráðherra Kanada.  Unnið er að rannsókn á orsökum flugslyssins og segjast rannsóknarmenn fyrst og fremst kanna áhrif óveðursins sem gekk yfir. Það er flugstjórinn sem ákveður hvort að óhætt sé að lenda þegar svona viðrar og þess vegna er samgöngumálaráðherra Kanada á því að hann beri ábyrgðina á því hvernig fór. Talsmenn Air France segja að flugstjórinn hafi ekki fengið nein skilaboð frá flugturninum sem hefðu leitt til þess að hann hugleiddi að hætta við lendinguna. Þó er ekki hægt að horfa fram hjá því að hann hafði reynt lendingu áður, hætt við og flogið hring yfir flugvellinum, sem hefði átt að gefa honum hugmynd um aðstæðurnar. Nokkrar kenningar eru um hvers vegna slysið var en talið er víst að fleiri en eitt þáttur skipti máli. Líklegt þykir að flugbrautin hafi verið rennandi blaut, enda gekk á með þrumum og eldingum. Reynist það rétt er talið að vélin hafi skautað á vatninu og runnið áfram. Í svona óveðri geta vindáttir snúist við í skyndingu og því hugsanlegt að mótvindur hafi verið í aðflugi sem skyndilega hafi snúist í meðvind á síðustu sekúndunum fyrir lendingu, sem hefði leitt til þess að vélin lenti of aftarlega á brautinni. Svörtu kassarnir hafa verið sóttir í flak vélarinnar og er verið að fara yfir upptökurnar úr þeim. Vonir standa til þess að þar megi finna upplýsingar sem verði til þess að ráðgátan verði leyst. Rannsóknarmennirnir vara hins vegar við því að það geti tekið mörg ár að raða hlutum púslsins saman.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×