Innlent

Áhorf á þætti Stöðvar 2 eykst

Spaugstofan er vinsælasti sjónvarpsþátturinn á Íslandi samkvæmt nýrri könnun Gallups. Áhorf á vinsælustu þætti Ríkissjónvarpsins hefur minnkað á síðustu mánuðum en fleiri horfa á vinsælustu þætti Stöðvar 2 en áður. Áhorf á fréttir beggja stöðva stendur í stað. Samkvæmt þessari nýjustu könnun Gallups sem gerð var í byrjun febrúar þá horfa 58 prósent þjóðarinnar á Spaugstofuna. Hún hefur lækkað um tæp 7 prósentustig síðan í síðustu könnun í nóvember. 53 prósent landsmanna horfa á Idolið á Stöð 2 og hefur áhorf á þann þátt aukist um rúm 9 prósentustig síðan í nóvember. 47 prósent horfa á símakosningu Idolsins og er aukningin sú sama þar og hjá Idolinu. Stóri tapari þessarar könnunar verður að teljast þátturinn Laugardagskvöld með Gísla Marteini. 42 prósent landsmanna horfðu á hann í febrúar og hefur hann tapað 17 prósentustigum. Fimmti vinsælasti þátturinn er svo danski spennuþátturinn Örninn með rúmlega 40 prósenta áhorf. Á þessum vinsældalista eru fréttir undanskildar. Áhorf á þær er nánast hið sama og í nóvember. 43,3 prósent horfa á fréttir Ríkissjónvarpsins en rúm 35 prósent á fréttir Stöðvar 2. Á síðasta hálfa ári hefur áhorfið á fréttir Stöðvar 2 hins vegar aukist um 6 prósentustig en áhorfið á fréttir Ríkissjónvarpssins staðið í stað. Landsmenn horfa jafnmikið á Stöð 2 og Ríkissjónvarpið á virkum dögum en meira á Ríkissjónvarpið um helgar.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×