Innlent

Drepinn ef hann snýr heim

Ungur Afgani segir hæli á Íslandi vera sitt síðasta hálmstrá. Heima bíði hans ömurleg örlög. Hann hefur beðið afgreiðslu hérlendra stjórnvalda á hælisumsókn sinni í 13 mánuði. Stríðsástand hefur verið í Afganistan í áratugi. Fyrst gerðu kommúnistar byltingu og náðu völdum en þegar landsmenn spyrntu við fótum komu Sovétmenn, síðar komu talíbanar og ástandið er enn skelfilegt á stórum svæðum. Úr þessu flúði Riaz Ahmed Khan. Hér á landi hefur hann dvalið frá því í lok september í fyrra. Útlendingastofnun segist vera að fara yfir mál hans til að staðfesta hver hann er en Riaz Ahmed segist hafa verið með pappíra - nafnskírteini -og það sé hjá Útlendingaeftirlitinu en þeir segjast ekki geta lesið það. „Það er skiljanlegt því það er á móðurmáli mínu sem Íslendingar skilja ekki," segir Riaz. Móðurmál hans er pastú eins og helmings Afgana. Munurinn á honum og þeim er hins vegar sá að hann er strandaglópur hér norður á Íslandi. Og hann kveðst ekki geta farið neitt annað. „Fari ég verð ég sendur aftur til Íslands því þetta var fyrsti áfangastaður minn og hér leitaði ég hælis. Ég á engra annarra úrkosta völ og ég verð hér um allan aldur. Fái ég ekki að búa hér þarf ég að fara aftur til heimalands míns sem er óhugsandi tilhugsun. Enginn getur sent mann aftur til Afganistans. Allir vita hvernig ástandið er þar,“ segir Riaz.  Íslömsk strangtrúargildi eru enn afar rík í Afganistan þrátt fyrir tilslökun eftir fall talíbana; réttindi kvenna eru enn fótum troðin í raun sem og réttindi samkynhneigðra. Riaz segir margt hafa gerst síðan kosningarnar fóru fram. Gömlu stríðsherrarnir séu komnir aftur til valda. Hvað sig varðar sé þetta ljóst: hann yrði drepinn strax og hann kæmi til landsins. „Ég veit það og yfirvöld hér líka. Ég hef sagt þeim það. Þeir vita allt. Það er ljóst að þeir drepa mig strax ef þeir ná mér,“ segir Riaz.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×