Erlent

Tony Blair hvattur til afsagnar

Þótt aðeins séu þrír dagar liðnir frá kosningunum í Bretlandi eru samflokksmenn Tony Blair þegar farnir að leggja að honum að segja af sér. Strax hefur slegið í brýnu á milli þeirra Gordon Brown fjármálaráðherra. Það fækkaði um 94 þingmenn í þingflokki Verkamannaflokksins eftir kosningarnar á fimmtudaginn en flokkurinn hefur nú aðeins 67 sæta meirihluta. Sá meirihluti getur reynst of naumur í umdeildum málum ef litið er til þess hversu margir þingmenn sem hafa verið Tony Blair óþægir ljáir í þúfu náðu endurkjöri. Nú eru margir þessara manna þegar farnir að knýja á um afsögn forsætisráðherrans. Í útvarpsviðtali við BBC í gær kvaðst Robin Cook, fyrrverandi utanríkisráðherra, vera þeirrar skoðunar að Verkamannaflokkurinn hefði sigrað í kosningunum þrátt fyrir Blair en ekki vegna hans. Cook, sem hætti í ríkisstjórninni í mótmælaskyni við innrásina í Írak, sagði að Blair ætti að hugsa vandlega um hvort nú væri ekki rétti tíminn til að láta öðrum leiðtogaembættið í Verkamannaflokknum eftir. Í svipaðan streng tóku þingmennirnir John Austin og Jeremy Corbyn, svo og Frank Dobson, fyrrverandi heilbrigðismálaráðherra, sem sagði Blair hafa verið bagga á flokknum í kosningunum í viðtali við ITV-sjónvarpsstöðina. Aðrir þingmenn komu Blair til varnar, til dæmis David Blunkett sem er orðinn ráðherra á ný, og Tessa Jowell, menningarmálaráðherra. Það er því ljóst að forsætisráðherrann er orðinn enn umdeildari í eigin flokki. Blair hefur ekki enn svarað gagnrýni samflokksmanna sinna en einn talsmanna hans sagði að yfirlýsing hans frá því í september um að hann sæti út kjörtímabilið stæði óbreytt. The Observer hermir að í innsta hring stuðningsmanna Blair sé rætt um að hann láti af embætti á flokksþingi Verkamannaflokksins árið 2008. Blaðið greindi jafnframt frá því að til snarpra orðaskipta hefði komið á milli þeirra Tony Blair og Gordon Brown vegna skipunar Andrew Adonis sem aðstoðarmann Ruth Kelly menntamálaráðherra. Brown lagðist eindregið gegn skipuninni og virtist Blair ætla að láta í minni pokann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×