Innlent

Fjárhættuspil á íslenskri vefsíðu

Vefsíða á íslensku hefur verið opnuð þar sem hægt er að spila fjárhættuspil upp á stórar upphæðir. Að hafa atvinnu af fjárhættuspili varðar við íslensk lög en eigendur síðunnar telja hana ekki ólöglega þar sem fyrirtækið á bak við hana er breskt. Hingað til hefur verið auðvelt að nálgast fjárhættuspil sem bönnuð eru hér á landi, á netinu á erlendum vefsíðum. Nú er í fyrsta sinn komin upp vefsíða á íslensku sem býður upp á póker, veðmál og fleiri fjárhættuspil: Betsson.com. Og þarna er um alvöru fjárhættuspil að ræða þar sem oft er spilað upp á mjög háar fjárhæðir. Fyrirtækið er breskt og því telja eigendur síðuna hvorki ólöglega né leyfisskylda hér á landi. Vefsíðurnar eru á tíu tungumálum. Fyrirtækið sjálft tekur 2% af hverri færslu sem fer í gegnum kerfið. Meðal annars er hægt að veðja á ýmiskonar íþróttaleiki og í framtíðinni séríslensk fyrirbæri, eins og hver vinni formannsslaginn í Samfylkingunni svo dæmi séu tekin. Að gera fjárhættuspil og veðmál að atvinnu varðar við hegningarlög hér á landi þó ýmsir, eins og Íslenskar getraunir, hafi sérstakt leyfi til að standa fyrir veðmálum. Ólafur V. Sigurvinsson, talsmaður Betsson.com, segir Rauða krossinn og SÁÁ einnig þar á meðal - og hinir síðarnefndu taki svo fólk í meðferð þegar það er orðið spilasjúkt. Dómsmálaráðuneytið gaf fréttastofu ekki upplýsingar um það í dag hvort þessi starfsemi hefði verið, eða kæmi, þar til skoðunar.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×