Sport

Léttir að hafa brotið ísinn

"Það er enginn smá léttir að vera búinn að brjóta ísinn." sagði Grétar Ólafur Hjartarson, sóknarmaður KR, þegar Fréttablaðið hafði samband við hann í gær. Grétar hefur farið rólega af stað með KR-ingum það sem af er sumri og náði ekki að skora í sex fyrstu leikjum liðsins í Landsbankadeildinni. Hann náði þó loksins að setja mark á sunnudagskvöld þegar KR skellti Leikni 6-0 í 32 liða úrslitum VISA-bikars karla. "Já, maður fann alveg fyrir pressu en hún kom mest frá mér sjálfum. Ég var orðinn ansi óþolinmóður fyrst ég var ekki búinn að skora en nú er fyrsta markið loksins komið og það er vonandi að þetta fari að smella. Ég verð bara að trúa því að það gerist," sagði Grétar, sem gekk til liðs við KR fyrir sumarið frá Grindavík. Hann hefur verið einn besti leikmaður efstu deildar undanfarin ár og var markakóngur 2002 og sá næstmarkahæsti í fyrra. Eftir sex umferðir í fyrra var hann búinn að skora fjögur af fimm mörkum Grindvíkinga og margir bjuggust við enn fleiri mörkum frá honum hjá stærra liði. "Ég vissi það alveg þegar ég kom til KR að það gæti alveg gerst að byrjunin yrði erfið. Ég hef samt lent í því áður að skora ekkert í einhverjum fimm leikjum í röð, það lenda flestir í svona markaþurrð. Það er bara spurningin hvenær á tímabilinu það gerist, ég held að það sé ekkert verra að það sé svona strax í byrjun," sagði Grétar en hann var ánægður með leikinn gegn Leikni. "Leikurinn fór alveg eins og við lögðum upp. Spiluðum af krafti og settum nokkur mörk. Leiknismenn eru með ágætis lið og börðust á fullu en við náðum að skora snemma og leikur þeirra brotnaði niður við það."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×