Erlent

Mótmæltu nýjum samkeppnislögum

Starfsmenn Samkeppnisstofnunar og Löggildingarstofu mótmæltu harðlega fyrirhuguðum breytingum á samkeppnislögum á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í morgun. Fulltrúi starfsmanna furðar sig á að það eigi að gera slíkar breytingar án þess að stjórnsýsluúttekt hafi verið gerð á núverandi fyrirkomulagi. Fulltrúar Samkeppnisstofnunar á fundinum í morgun sögðust telja að breytingarnar veiktu samkeppnislögin og stjórnmálamenn ættu nú greiðari leið en áður til að hafa afskipti af stofnuninnni. Fram kom á fundinum að sett hefði verið á laggirnar sérstök undirbúningsnefnd til að huga að málum starfsmanna við breytingarnar. Þá kom einnig fram að yfirhagfræðingur Samkeppnisstofnunar hefði látið af störfum að eigin ósk um áramót m.a vegna óvissu um framtíð stofnunarinnar vegna breytinganna. Steingrímur Ægisson, fulltrúi starfsmanna, segist hafa áhyggjur af sjálfstæði stofnunarinnar eins og málum sé háttað og starfsfólki sé haldið í mikilli óvissu. Hann segir að starfsmenn skilji ekki hvers vegna það eigi að fara út í breytingarnar, þ.e. að skipta stofnunum upp í Samkeppniseftirlit annars vegar og Neytendastofu hins vegar. Þeir vilji benda á að það hafi ekki farið fram nein stjórnsýsluúttekt á málefnum stofnunarinnar, starfsmenn hafi ekki verið spurðir um breytingarnar og ekki heldur yfirstjórnin, samkeppnisráð eða áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Í því telji starfsmennirnir að vandinn kristallist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×