Erlent

Ríflega fimmtíu dóu í lestarslysi

Í það minnsta 50 fórust á fimmta hundrað slösuðust í miklu lestarslysi í Japan í gærmorgun. Talið er að óreyndur lestarstjórinn hafi ekið lestinni allt of hratt með þeim afleiðingum að hún þeyttist út af sporinu. Sneisafull lestin var á ferðinni í nánd við Amagasaki, um 400 kílómetra vestur af Tókýó, en 580 farþegar eru sagðir hafa verið um borð. Á augabragði tókst hún nánast á loft og flaug út af sporinu og hafnaði á níu hæða fjölbýlishúsi. Tveir af sjö vögnum lestarinnar krömdust upp við húsvegginn og flöttust nánast út. Sjúkralið kom þegar á vettvang og reyndi að bjarga því sem bjargað varð en svo virðist að í það minnsta 50 manns hafi látið lífið á fimmta hundrað slasaðist, sumir alvarlega. Flest bendir til að 23 ára gamall lestarstjórinn hafi ekið lestinni á ofsahraða en aðeins nokkrir mánuðir eru liðnir síðan hann fékk réttindi til að stjórna slíku farartæki. Allt bendir til að lestin hafi hreinlega þeyst út af sporinu en til þess þurfti hún að vera á í það minnsta 133 kílómetra hraða á klukkustund. Þetta er mannskæðasta lestarslys í Japan síðan 1961.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×