Erlent

Stúlkur eru hin gleymdu fórnarlömb

Tæpur helmingur barna sem þvinguð eru til að taka þátt í stríðsátökum er stúlkur. Í hernaðinum eru þær beittar margvíslegu oftbeldi og að átökum loknum eiga þær erfiðara en piltar með að laga sig að þjóðfélaginu á ný. Mannúðarsamtökin Save the Children hafa birt ítarlega skýrslu um þær hörmungar sem stúlkur sem neyddar eru til að taka þátt í hernaði verða fyrir. Þær yngstu eru allt niður í átta ára gamlar. Af þeim 300.000 börnum sem talin eru þvinguð til hermennsku víða um heim er tæplega helmingur stúlkur. Ýmsir hópar sem ríksisstjórnir á Vesturlöndum styðja misnota börn á þennan hátt. Breska dagblaðið The Independent greinir frá því að á meðan á átökunum stendur eru stúlkurnar oft teknar herfangi, þeim nauðgað og misþyrmt á ýmsa vegu. Eitt helsta vandamálið er að þegar átökunum sleppir þá eiga stúlkurnar mun erfiðara með að aðlagast þjóðfélaginu á ný og fást síður til að taka þátt í endurhæfingarverkefnum sem alþjóðastofnanir standa fyrir í stríðshrjáðum löndum. Ein af ástæðunum er sú að á meðan piltum er fagnað sem hetjum fyrir þátttöku sína þá verða stúlkurnar fyrir aðkasti og fyrirlitningu. Oft neyðast þær til að sjá fyrir sér með vændi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×