Erlent

Herlög taka gildi í New Orleans

Lögregla í New Orleans hefur lýst herlög í gildi til þess að reyna að koma í veg fyrir þjófnaði í kjölfar þess að fellibylurinn Katrín fór þar um og olli miklu tjóni.  Frá þessu greinir Sky-fréttastöðin. Útgöngubann hefur tekið gildi í borginni og íbúar eru hvattir til þess að sjóða drykkjarvatn sitt þar sem yfirvöld óttast að það hafi mengast í flóðunum sem fylgdu Katrínu. Talið er að að minnsta kosti 80 manns hafi farist í hamförunum, þar af 30 í húsi í Biloxi í Misssissippi sem hrundi í veðurofsanum. Björgunarsveitarmenn eiga eftir að komast á mörg þeirra svæða sem urðu fyrir Katrínu og þar sem helstu samgöngu- og samskiptaleiðir eru stórskemmdar gæti liðið þó nokkur tími þar til manntjónið verður ljóst. Í morgun brast flóðvarnargarður sem hélt stöðuvatninu Lake Pontchartrain við New Orleans í skefjum. Við það jukust flóðin í borginni enn frekar. Vatnið á götunum er sums staðar orðið 7 metra djúpt og eyðileggingin er gríðarleg. Meira en milljón manns er án rafmagns á suðurströnd Bandaríkjanna og að sögn yfirvalda gætu liðið allt að tveir mánuðir þar til rafmagnið kemst á aftur. Krafturinn í fellibylnum dvínaði eftir því sem hann gekk lengra upp á land og nú er svo komið að hann er flokkaður sem hitabeltisstormur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×