Erlent

Vill frekari aðstoð í ópíumbaráttu

Ópíumræktun í Afganistan dróst saman um meira en þriðjung á síðasta ári. Forseti landsins biður um frekari alþjóðlega aðstoð svo afganskir bændur geti alfarið sagt skilið við ópíumrækt. Unnið hefur verið að því hörðum höndum að brjóta á bak aftur ópíumræktun í Afganistan, stærsta ræktunarsvæði ópíums í veröldinni, þar sem hundruð tonna eru ræktuð ár hvert. Bandaríkin, Bretland og Frakkland hafa varið hundruðum milljóna dollara í að aðstoða bændur við að skipta yfir í annars konar ræktun og hafa einnig þjálfað upp löggæslusveitir. Á fundi með blaðamönnum í dag kallaði Hamid Karzai, forseti Afganistans, eftir frekari aðstoð og áætlar að þannig verði hægt að binda enda á ópíumrækt í landinu eftir tvö ár. Hann segir að líkur séu á því að ópíumframleiðslan í ár dragist saman um 30-40 prósent, samkvæmt gögnum frá Sameinuðu þjóðunum og Bretlandi. Það verði þó að sannreyna. Afganistan hafi náð árangri í baráttunni gegn ópíumframleiðslu og halda verði áfram þar til búið verði að eyða sérhverju valmúablómi í Afganistan, en Afgönum takist ekki að eyða þeim einum. Bændur eru þó lítt hrifnir af því hvernig farið er með ræktunarlöndin þeirra. Lal Mohammed ópíumbóndi segir að stjórnvöld hafi eyðilagt alla hans uppskeru, en hann hafi eytt miklu fé, vinnu og tíma í hana. Nú verði stjórnvöld að koma honum til hjálpar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×