Innlent

Brotist inn í heimabanka og milljónir millifærðar

Tuttugu og fimm ára karlmaður situr í gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðild að þjófnaði úr heimabönkum. Maðurinn var handtekinn í fyrrakvöld og í gærmorgun var hann úrskurðaður af Héraðsdómi Reykjavíkur í gæsluvarðhald í eina viku.

Hann virðist tengjast fleiri en einu þjófnaðarmáli úr heimabönkum, því inn á reikninga á hans vegum hafa farið, með millifærslum úr tölvu, talsverðar upphæðir af reikningum annars fólks.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru fjögur einstök þjófnaðarmál úr heimabönkum til rannsóknar hjá lögreglunni í Reykjavík. Hið fyrsta kom upp í lok sumars en það nýjasta í vikunni sem leið. Þær fjárhæðir sem stolið hefur verið af reikningum nema frá 100 þúsund krónum og upp í rúmlega 1,5 milljónir króna.

Í síðustu viku varð ungur maður þess var að 100 þúsund krónur voru horfnar af debetreikningi hans. Hann gerði forráðamönnum bankans viðvart og þeir leituðu til lögreglu, sem þegar hafði fyrri mál til rannsóknar.

Þjófarnir hafa ekki ráðist á tölvukerfi bankanna heldur á einkatölvur fólks og þannig náð út peningum. Lélegar eða engar vírusvarnir eða eldveggir í tölvum auðvelda mönnum slík afbrot. Það getur meðal annars stafað af því að tölvunotendur hafi farið inn á sýktar heimasíður. Einnig getur verið um svokallaðan trójuhest að ræða sem berst í formi tölvupósts og inniheldur viðhengi með vírusum sem reyna að slökkva bæði á veiruvörnum og eldveggjum.

Tölvunotendur geta látið fagmenn ganga úr skugga um að öryggisatriði búnaðar þeirra séu í lagi. Notendur heimabanka geta fylgst grannt með öllum hreyfingum á reikningum sínum með því að fá sendan tölvupóst í hvert sinn sem úttekt er gerð af debetreikningi. Einnig geta þeir fengið yfirlit yfir færslur á kreditkortareikning í lok hvers dags með sama hætti.

Hörður Jóhannesson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, staðfesti að maður sæti í gæsluvarðhaldi af þessum sökum og að rannsókn stæði yfir. Hann kvaðst ekki vilja tjá sig efnislega um rannsóknina meðan hún stæði yfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×