Erlent

Samþykki áströlsk gildi eða fari

Þeir sem ekki vilja samþykkja áströlsk gildi geta hunskast burt, segir ástralski menntamálaráðherrann Brendan Nelson. Þessi ummæli hafa valdið nokkrum úlfaþyt hjá áströlskum múslimum, en Nelson lét þessi orð falla í sambandi við skipulagða fundi með forsvarsmönnum múslima í landinu. Nelson lýsti því yfir í dag að hann ætlaði að funda með Samtökum múslima um hvernig best væri að kenna íslömskum börnum áströlsk gildi. Og hann talaði enga tæpitungu. „Geti fólk ekki stutt, viðurkennt, tileinkað sér og kennt áströlsk gildi getur það farið," sagði Nelson. Forsvarsmenn ástralskra múslíma voru ekki par ánægðir með þetta orðfæri menntamálaráðherrans og fannst orðum hans beint gegn sér að ósekju. Silma Ihran í Menntaráði múslíma sagði að allir þyrftu að kenna sömu gildi, áströlsk gildi. Henni þætti miður að Nelson beindi spjótum sínum að íslömskum skólum. Hanedfa Buckley, íslamskur nemi, benti á að yfirvöld þyrftu að finna að íslömsk ungmenni væru eins og Ástralar og hefðu sömu gildi og aðrir Ástralar því þau væru Ástralar. Stúdentarnir viðurkenndu þó að fyrir suma væri erfitt að samræma trúna og þjóðerniskenndina. Forsætisráðherrann John Howard hefur stutt Nelson í málinu og sagt að bæði moskur og íslamskir skólar verði vaktaðir til að koma í veg fyrir að öfgamenn fái þar frið til að hvetja til hryðjuverka. Howard segir enn fremur að að ytfirvöld hafi rétt á að vita hvort hvatt sé til hryðjuverka innan íslamska samfélagsins. Ástralar ætla sem sagt ekki að verða eftirbátar Breta í baráttunni við hryðjuverkaógnina en aðferðir beggja eru greinilega umdeildar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×