Erlent

Litrík stjórnmálakona látin

Mo Mowlam var án efa með litríkustu stjórnmálamönnum Bretlands en hennar verður fyrst og fremst minnst fyrir þátt hennar í friðarferlinu á Norður-Írlandi. Mowlam var síður en svo fædd með silfurskeið í munni. Hún sagðist vera komin úr traustri miðstéttarfjölskyldu sem hún lýsti sem rótlausri lág-miðstéttar fjölskyldu. Að hluta til orsakaðist það af fjárhagsvanda fjölskyldunnar vegna drykkju föður hennar og þess vegna fannst henni hún ekki tilheyra sérstökum  hópi. Og uppeldi sitt og aðstæður taldi hún hafa leitt til þess að hún bar virðingu fyrir breiðum þjóðfélagshópi. Almenningur tók henni einnig vel og hún naut mikilla vinsælda; svo mikilla að þegar hún hætti afskiptum af stjórnmálum 2001 vildu Bretar samkvæmt könnunum að hún tæki við af Tony Blair. Þó að friðarsamningarnir á Norður-Írlandi séu pólitísk arfleifð hennar og hennar verði minnst fyrir hugrekki og frakka framgöngu í því samhengi, voru það ekki síst veikindi hennar sem urðu til þess að hún naut virðingar. Á síðustu mánuðum tóku veikindi hennar sig upp á ný og erfið læknismeðferð setti mark sitt á hana. Mowlam féll í síðasta mánuði og hlaut höfuðhögg sem leiddi til meðvitundarleysis. Hún vaknaði ekki eftir af því og lést á líknardeild í morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×