Erlent

Sýknaður af aðild að 11. september

Dómstóll í Hamborg dæmdi í gær Mounir el Motassadeq, marokkóskan mann sem búsettur er í Þýskalandi, fyrir að vera félagi í al-Kaída hryðjuverkasamtökunum. Hann var hins vegar sýknaður af þátttöku í hryðjuverkaárásunum 11. september 2001. Motassadeq var á sínum tíma fundinn sekur um öll ákæruatriði, þar á meðal 3.000 ákærur vegna þeirra sem létust í hryðjuverkaárásunum 11. september. Áfrýjunardómstóll vísaði hins vegar málinu aftur heim í hérað þar sem talið var að Motassadeq hefði ekki hlotið sanngjarna málsmeðferð. Dómararnir Hamborg komust að þeirri niðurstöðu í gær að Motassadeq hefði verið félagi í al-Kaída sellunni í borginni þar sem flugmennirnir Mohammad Atta, Marwan al-Shehhi og Ziad Jarrah voru einnig. Þeir töldu hins vegar ekki hafa verið sýnt fram á að hann hefði haft einhverja vitneskju um árásirnar mannskæðu. Dómararnir gagnrýndu bandarísk stjórnvöld fyrir að hafa einungis látið þeim í hendur samantekt á yfirheyrslum yfir al-Kaída liðum í Bandaríkjum vegna málsins, en ekki sjálfar frumskýrslurnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×