Erlent

Bíða dauðans eða björgunar

Þótt nú hafi loks tekist að koma þeim tugþúsundum til hjálpar sem leitað höfðu skjóls í ráðstefnumiðstöð og íþróttahöll New Orleans-borgar er enn mikill fjöldi fólks innlyksa víða um borgina og annars staðar á hamfarasvæðunum við Mexíkóflóann. Hin 85 ára gamla Margaret Pertuit er í þessum hópi. Hún liggur á bedda í ljóslausu, vatnsósa herbergi á Economy Inn-mótelinu í Bay St.Louis í Mississippi, og bíður eftir að annað hvort af tvennu gerist: að hún fái að deyja eða verði bjargað. Þúsundir strandaglópa dvelja enn á hótelum á hamfarasvæðunum, þótt vistin þar sé nú vart mönnum bjóðandi: hiti, fnykur, raki og myrkur einkennir aðstæðurnar í rafmagnsleysinu á flóðasvæðunum. Skortur er á öllu. Það er ekki hægt að sturta niður úr klósettunum. Ekkert rennandi vatn. Leiðindin yfirþyrmandi. "Við sitjum hérna föst og bíðum þess að Bandaríki Norður-Ameríku bjargi okkur," segir einn gesturinn, þriggja barna faðirinn Noel Rowell. Óljóst er hvenær björgunarliði verður fært að hjálpa slíkum strandaglópum með því að útvega þeim far eða eldsneyti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×