Erlent

20 ár fyrir fíkniefnasmygl á Balí

Það varð uppi fótur og fit í dag þegar fangelsisdómur var kveðinn upp yfir liðlega tvítugri snyrtidömu fyrir eiturlyfjasmygl á Balí. Málið hefur vakið mikla athygli og hörð viðbrögð í Ástralíu, heimalandi stúlkunnar. Schapelle Corby var gripin á ferðamannaeyjunni Balí á síðasta ári með ríflega fjögur kíló af marijúana í handfarangrinum sínum. Hún var þegar í stað kærð fyrir eiturlyfjasmygl og gat eins átt von á dauðadómi. Málið hefur vakið gríðarlega athygli í Ástralíu, ekki síst í ljósi þess að Schapelle hélt því fram að eifurlyfjunum hefði verið komið fyrir í töskunni hennar og að hún hefði ekkert með þau að gera. Í dag var komið að dómsuppsögu og kvað forseti dómsins yfir upp 20 ára fangelsisdóm yfir henni. Í kjölfarið varð uppi fótur og fit í réttarsal. Schapelle brast í grát og fjölskylda hennar hrópaði í skelfingu. Móðirinn hrópaði „lygari“ að dómaranum og réttarverðir reyndu að toga Schapelle á brott. Hún fékk þó að faðma ástvini sína að sér í síðasta sinn áður en afplánun hefst. Áströlsk yfirvöld hafa farið fram á að hún fái að sitja dóminn af sér í Ástralíu en yfirvöld í Indónesíu eru ekki á því þar sem það væri slæmt fordæmi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×