Erlent

Einn dagur í þjóðaratkvæðagreiðslu

Fátt bendir til að Frakkar muni leggja blessun sína yfir stjórnarskrársáttmála Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem haldin verður á morgun þrátt fyrir mikinn þrýsing frá innlendum og erlendum stjórnmálamönnum. Nýjustu skoðanakannanir benda til þess að andstæðingum sáttmálans hafi heldur sótt í sig veðrið undanfarna daga, 55 prósent kjósenda virðast ætla að segja nei í kosningunni en 45 prósent já. Enn eru þó margir óákveðnir og bindur Jacques Chirac Frakklandsforseti að hinir óákveðnu muni á endanum snúast á sveif með sér. Chirac hélt sitt síðasta sjónvarpsávarp fyrir kosningarnar í fyrrakvöld en þar varaði hann landa sína eindregið við að hafna plagginu. Jose Luis Rodriguez Zapatero, forsætisráðherra Spánar kom til Frakklands í gær til að hvetja Frakka til að kjósa já á sunnudaginn. Hið sama gerði Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, en fyrr um daginn hafði þýska sambandsþingið staðfest sáttmálann. Valerie Giscard d'Estaing, fyrrverandi forseti Frakklands og helsti arkitekt stjórnarskrársáttmálans, útilokaði ekki að kosið yrði að nýju ef Frakkar segðu nei en því hefur hingað til verið hafnað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×