Erlent

20 farast í sprengjutilræði

Í það minnsta tuttugu manns biðu bana í sjálfmorðsprengjuárás í Islamabad, höfuðborg Pakistans, í gær. Talið er að illindi á milli trúarhópa í landinu sé kveikja tilræðisins. Maður gyrtur sprengjubelti gekk inn á helgistað sjía í úthverfi höfuðborgarinnar og sprengdi sjálfan sig í loft upp. Í það minnsta tuttugu manns fórust í tilræðinu og um 150 eru sagðir særðir. Mikill fjöldi fólks var á helgistaðnum til að minnast dauða píslavottar sem grafinn er þar. Sprengjan tætti í sundur sum líkanna, svo öflug var hún. Til átaka kom á milli reiðra sjía á staðnum og lögreglu sem reyndi að rýma til fyrir sjúkrabílum. "Niður með Bandaríkin," hrópaði fólkið. Enginn hefur lýst tilræðinu á hendur sér en talið er að öfgamenn úr hópi súnnía hafi staðið fyrir því. Þorri Pakistana aðhyllist súnní-sið og stundum skerst í odda á milli sjía og súnnía í landinu. Í mars síðastliðnum biðu 46 sjíar bana í sprengjutilræði í Balúkistan-héraði sem er í vesturhluta landsins. Pervez Musharraf, forseti Pakistans, fordæmdi árásina harðlega í ávarpi sínu til þjóðarinnar og hvatti fólkið til að sameinast gegn trúarátökum og hryðjuverkum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×