Innlent

Stefna öryrkja þingfest á morgun

Mál Öryrkjabandalags Íslands á hendur ríkisstjórn Íslands vegna meintra brota á samkomulagi um hækkun grunnlífeyris frá árinu 2003, verður þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur á morgun. Forysta Öryrkjabandalagsins segir að enn vanti fimm hundruð milljónir í sjóði öryrkja svo samkomulag sem þáverandi formaður Öryrkjabandalagsins og heilbrigðisráðherra undirrituðu fyrir síðustu kosningar.

Samkomulagið var undirritað að viðstöddum blaðamönnum og forsvarsmönnum heilbrigðismála þann 25. mars árið 2003 og fjallaði um línulega hækkun grunnlífeyristekna örorkulífeyrisþega.

Garðar Sverrisson, þáverandi formaður Öryrkjabandalagsins, og Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, undirrituðu samkomulagið.

Þegar svo kom að því að fjárlagafrumvarp ársins 2004 kom fyrir augu þings var ljóst að einum milljarði króna átti að veita til efnda á samkomulaginu, sem útreikningar höfðu gert ráð fyrir að kostaði einn og hálfan milljarð króna.

Öryrkjar mótmæltu harðlega og fast var sótt að Jóni Kristjánssyni og hann sakaður um svik af forystumönnum Öryrkjabandalagsins og fyrir að gera leynisamkomulag við öryrkja af formanni fjárlaganefndar.

Sjálfur lýsti Jón því yfir að hann hefði viljað ganga lengra til að efna samkomulagið og vonuðust öryrkjar eftir því að úr rættist árið eftir en við afgrteiðslu fjárlaga fyrir árið 2005 var ljóst að það yrði ekki gert enda væri samkomulagið að fullu efnt með eins milljarðs framlagi ársins 2004, að mati forystumanna ríkisstjórnarinnar.

Í kjölfarið var tekin ákvörðun um að stefna stjórnvöldum fyrir samningsrof. Samkvæmt upplýsingum úr öryrkjabandalaginu mun sú stefna verða þingfest á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×