Innlent

Blendin afstaða til hjónabanda samkynhneigðra innan kirkjunnar

Kirkjunnar menn skiptast í tvö horn í afstöðunni til hjónavígslu samkynhneigðra. Þetta kemur fram í könnun sem guðfræðinemi gerði meðal vígðra presta og djákna.

Samkvæmt könnuninni voru 47 prósent aðspurðra mjög eða frekar sammála því að þjóðkirkjan fái með lögum að gefa saman samkynhneigð pör. 44 prósent voru frekar eða mjög ósammála. Níu prósent tóku ekki afstöðu.

Hulda Guðmundsdóttir guðfræðinemi, sem stóð fyrir könnuninni, segir könnunina aðeins gefa vísbendingu þar sem svarhlutfall var aðeins 48 prósent en 163 voru beðnir um að taka þátt í henni. Fjórir svarmöguleikar voru gefnir þegar spurt var, hvað þjóðkirkjan ætti að gera ef Alþingi ákveður að fella í ein lög, lög um staðfesta samvist. Þar vildu 46 prósent að um tvenns konar helgiathafnir yrði að ræða, annars vegar helgiathöfn samkynhneigðra og hins vegar helgiathöfn gagnkynhneigðra, en 30 prósent vildu það ekki. Rúm 23 prósent vildu að prestum yrði gefið frjálst að vígja samkynhneigða en rúm 47 prósent voru því andsnúin. Þá vildu rúm 19 prósent að þjóðkirkjan lýsi því yfir að hún muni ekki gefa saman samkynhneigða en tæp 58 prósent voru því ósammála. Tæplega átta prósent vildu að prestar hættu alfarið að gefa saman pör ef ein lög yrðu um hjúskap en nærri 80 prósent vildu að hjónavígslum yrði haldið áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×