Erlent

Tyrkland hafi uppfyllt kröfur ESB

„Tyrkland hefur komið til móts við allar kröfur Evrópusambandsins, nú verður ekki meira að gert.“ Þetta sagði Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands í dag, en samningaviðræður um inngöngu Tyrklands í Evrópusambandið eiga að hefjast 3. október. Ekki eru allir meðlimir sambandsins sammála honum. Tyrkir hafa lengi stefnt að því að verða fullgildir meðlimir Evrópusambandsins. Leiðtogar þess hafa krafist ýmissa breytinga í tyrknesku stjórnarfari svo það megi verða mögulegt, svo sem afnáms dauðarefsingar og mikilla umbóta í mannréttindamálum. Erdogan segir öllum kröfum hafa verið mætt og nú sé kominn tími til að fara að vinna að alvöru samningi. Frakkar hafa haft efasemdir um ágæti þess að Tyrkir gangi í sambandið og nefna til dæmis að það sé fáránlegt að þjóð sem sé meðlimur í sambandinu viðurkenni ekki aðra þjóð sem þar er fyrir. Tyrkir viðurkenna ekki Kýpur vegna langvinnra deilna eftir stríð Grikkja og Tyrkja þar fyrir áratugum síðan og tvískiptingu landsins í grískan og tyrkneskan hluta. Angela Merkel, kanslaraefni kristilegra demókrata í Þýskalandi, hefur einnig reitt Erdogan til reiði með því að leggja margsinnis til að Evrópusambandið geri tvíhliða samning við Tyrki, en veiti þeim ekki fulla aðild. Allar líkur eru á að Merkel verði kanslari Þýskalands eftir kosningarnar þar í landi 18. september. En þrátt fyrir greinilega tregðu þessara tveggja stóru ESB-ríkja hafa stjórnvöld í hvorugu þeirra sagt að þau muni beita neitunarvaldi til að hindra það að samningarviðræður hefjist í október.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×