Innlent

Umræðan um sameiningu heldur áfram

„Það er ljóst að þessar niðurstöður séu ýmsum sveitarstjórnarmönnum vonbrigði, öðrum ekki," segir Þórður Skúlason, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga. „Skiptar skoðanir voru meðal sveitarstjórnarmanna um tillögurnar sem settar voru fram af sameiningarnefnd eftir ítarlega yfirlegu og að undangengnum viðræðum," segir Þórður. Aðspurður segir hann niðurstöðurnar í sjálfu sér ekki vonbrigði. „Íbúarnir hafa lýst þessum vilja sínum með lýðræðislegum hætti og í mörgum svietarfélögum hefur meirihluti þeirra komist að þeirri niðurstöðu að sameining þeirra sveitarfélags við annað eða önnur sveitarfélög væri ekki til hagsbóta fyrir þeirra sveitarfélag," segir Þórður. Spurður um hvert framhaldið verði segist Þórður telja að umræða um sameiningu sveitarfélaga, verkefni þeirra og skyldur og breytt verkaskipti ríkis og sveitarfélaga og tekjustofna sveitarfélaga muni halda áfram. „Ekki síst heima í héraði þar sem menn halda áfram að ræða bæði sveitarfélagaskipunina og samstarf sveitarfélaganna á tiltekhnum svæðum," segir hann. Hann segir að vel geti verið að sveitarstjórnarmenn íhugi annars konar sameiningu og bendir á að þrátt fyrir að viðlíka niðurstaða hafi fengist úr kosningum um sameiningu sveitarfélaga 1993 hafi sveitarfélögum fækkað um rúmlega helming síðan þá, með samþykki íbúa í atkvæðagreiðslu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×