Erlent

Olíuverð fer lækkandi

Sjötíu og einn dollara á fatið var olíuverðið á heimsmarkaði dagana eftir að Katrín gekk yfir Mexíkóflóa og suðurströnd Bandaríkjanna. Olíuborpallar voru rýmdir, hreinsunarstöðvar og olíuleiðslur laskaðar og ástandið er ekki gott. Nú er verðið tæpir sextíu og sjö dollarar á fatið. Alþjóðasamfélagið hefur skrúfað frá krananum á neyðarbirgðum sínum með þeim afleiðingum að Bandaríkjamenn frá von bráðar þrjátíu milljónir tunna sendar til sín. Olíuvinnslustöðvar eru að komast af stað á ný og eftirspurn er talin hafa dregist nokkuð saman vegna verðhækkana. Þá er talið að neikvæðar fréttir af neyðarolíubirgðum Bandaríkjastjórnar sem væntanlegar eru á morgun breyti litlu. Áhrifanna gætir fyrst og fremst á hlutabréfamörkuðum en gengi hlutabréfavísitalna hækkaði bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum. Áhrifin á bensínverðið á dælunum víðast hvar láta hins vegar á sér standa. Bandaríkjamenn eru öskuillir og kenna stjórnvöldum um, og hér á landi segja sérfræðingar olíufélagana að þrátt fyrir fjögurra krónu meðalhækkun í síðustu viku sé í raun ennþá þörf á meiri hækkunum. Íslenskir ökumenn geta því ekki andað léttar enn sem komið er. Þó að verðið á heimsmarkaði hafi hjaðnað nokkuð frá því sem var fyrir viku segja sérfræðingar OECD, í skýrslu sem kom út í dag, að litlar líkur séu á að olíuverð fari mikið niður á næstunni. Áhrifin eru meðal annars þau, að hagvöxtur dregst saman á heimsvísu og verður töluvert minni en upphaflega var búist við



Fleiri fréttir

Sjá meira


×